Aumingja vondu karlarnir.....

Byggi hugleiðingu mína í dag á frábærri samantekt Ingólfs V. Gíslasonar sem unnið var á vegum nefndar um aðgerðir gegn ofbeldi.

Ofbeldi í nánum samböndum er alvarlegt þjóðfélagsmein á
Íslandi líkt og í öðrum löndum. Það dregur úr möguleikum og lífsgæðum þeirra sem verða fyrir en það eitrar líka út frá sér og setur mark á alla samfélagsþróun.

Ofbeldi í nánum samböndum er eitt af þeim samfélagsmeinum sem við getum dregið verulega úr og í leiðinni minnkað þann mikla skaða sem einstaklingar sem beittir hafa verið ofbeldi verða fyrir. Fyrir okkur öll sem samfélag er þetta mikilvægt.

Enginn á að þurfa að búa við ofbeldi og hér verður bent á nokkra þætti sem ættu
að geta dregið almennt úr ofbeldi gegn konum.

Ábyrgð okkar allra er mikil en auðvitað er það svo að sumir faghópar eru í betri aðstöðu en aðrir til að sjá einkenni ofbeldis og geta þá og eiga að bregðast við því.

Samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnunar hafa milli 10% og 50% kvenna í heiminum verið beitt líkamlegu ofbeldi af maka. Árið 1998 var ofbeldi sem konur voru beittar af nákomnum aðila í tíunda sæti dánarorsaka kvenna á
aldrinum 15-44 ára (World Health Organization 2000a). Sláandi ekki satt?

Hérlendis er skilgreining Samtaka um kvennaathvarf
þannig, "Heimilisofbeldi er þegar einn fjölskyldumeðlimur kúgar annan í skjóli friðhelgi heimilisins og tilfinningalegrar-, félagslegrar- og fjárhagslegrar bindingar" (Samtök um kvennaathvarf 2006, 6)

Það eru margar skilgreiningar til um hvað heimilisofbeldi sé en í grundvallaratriðum snýst málið alltaf um það sama. En það er valdbeiting sem er beitt í kúgunarskyni og tengist manneskju sem tengd er geranda tilfinningaböndum.

Það sem flestum dettur í hug þegar talað er um heimilisofbeldi eru barsmíðar. En dæmi um líkamlegt ofbeldi getur verið að manneskja sé slegin, hrist, kýld, sparkað í hana, bitin, brennd, klóruð, slegin með flötum lófa, bundin, rassskellt, kæfð,tekin kverkataki, hlutum hent í hana og fleira og fleira...Getur endað með að manneskjan er drepin.
Oftar en ekki eru áverkarnir á stað sem yfirleitt er hulinn öðrum, eins og brjóstum, kviðarholi eða fótum.

Svo er það andlegt ofbeldi en það felur í sér niðurlægjandi hegðun sem hefur það að markmikði að stjórna konunni, vera með vald yfir henni. Hér er ekki verið að tala um rifrildi milli hjóna heldur er þetta hegðun sem einungis leiðir til stjórnunar þess sem henni beitir eða styrkir slíka stjórnun. Dæmi um andlegt ofbeldi er t.d. niðurlægjandi athugasemdir eins og "þú ert svo heimsk", ógnanir um að skemma eitthvað, fara með börnin frá hinu foreldrinu, skaða þau eða sjálfan sig. Einnig er mikið notað þegar um er að ræða útlenskar konur að koma þeim úr landi en halda börnunum eftir. Svo er ýmiskonar eftirlit hluti af þessu andlega ofbeldi, eins og að skoða póst, fylgjast með hvar makinn er, hringja í sífellu.

Ásakanir um geðveiki eða drykkju eða eiturlyfjaneyslu er einnig eitt dæmið. Svo er það einangrun, það að fara með fjölskylduna eitthvað frá vinum og fjölskyldu, takmarka heimsóknir og símtöl. Svo er það sífelld gagnrýni, svívirðingar, hróp og öskur, afneitun ofbeldisins og niðurlæging....

Kynferðislegt ofbeldi er einnig eitt dæmið um það hvað ofbeldismenn ganga langt...
Dæmi um slíkt ofbeldi er t.d. þvingun til kynlífs. Kynferðislegar svívirðingar, þvingað vændi, þvingað áhorf á klám, þvinguð þátttaka með öðrum í kynlífi, óviðeigandi kynferðislegt tal um maka um þær sjálfar, systur eða vinkonur.

Eitt af því sem kannað hefur verið er ástæða þess afhverju beita þessir menn konurnar sínar ofbeldi....Eitt af því er ofbeldi sem þeir virðast læra á æskuheimili sínu...Börn sem upplifa ofbeldi á æskuheimilum eru líklegri til að beita ofbeldi en þau sem ekki verða fyrir slíku. Stór hluti þeirra sem verða vitni að ofbeldi föður gegn móður endurtaka þá hegðun í sinni eigin sambúð. Strákarnir endurtaka hana þannig að þeir leggja hendur á maka sinn en stelpurnar eru líklegri til að umbera ofbeldi.

Svo spyr samfélagið "afhverju fara þessar konur ekki frá mönnunum"? Svarið við því er á þrjá vegu...Í fyrsta lagi þá fara þær, þær skilja við mennina og fara. Í öðru lagi er sú grafalvarlega staðreynd að ofbeldið hættir ekki þótt þær fari og sumar konur telja að þeim sé betur borgið með ofbeldismanninum þar sem kannanir sýna að þær eru oftar en ekki drepnar af ofbeldismönnunum ef þær fara. Nú svo í þriðja lagi að þegar búið er að kúga konu og segja henni að hún sé heimsk í fjöldamörg ár þá er lítið eftir og trúir hún því staðfastlega að hún gæti ekki komist af ein.

En afhverju segja þær ekki frá ofbeldinu? Ástæður þar eru margar en m.a. Þær eru hræddar við afleiðingarnar ef þær segja frá, sumar konur líta ekki á að þær búi við ofbeldi, þær óttast að missa börnin frá sér ef þær segja frá. Svo óttast þær að það trúi þeim enginn, sérstaklega ef það eru engir líkamlegir áverkar.

En hvað er til ráða?

Ljóst er að ofbeldi gegn konum í nánum samböndum er ákaflega alvarlegt mál og ósásættanleg skerðing á lífsgæðum manneskju. Það er því mikilvægt að draga sem fyrst úr ofbeldinu og aðstoða þann sem fyrir því verður eins fljótt og auðið er. Öryggi er mikilvægt og að þeim sé trúað og þeim sé sýnd virðing. Gott er ef ein manneskja sinni aðstoðinni þar sem það er ákaflega erfitt fyrir þolanda að segja sögu sína aftur og aftur, margendurtaka frásögnina og rekja aftur og aftur persónuleg atriði er þyngra en marga grunar. Einnig er aðstoð við börn ákaflega mikilvæg.

Það sem kanski er best er styrking, það að styrkja manneskjuna sem er mölbrotin eftir áralanga kúgun og óöryggi ætti að vera það sem unnið er með af fullum móð.

Þetta er orðið langt blogg hjá mér í dag en þegar ég renni yfir þessa hluti og afla mér upplýsinga af fræðilegum toga sé ég svo ekki er um að villast hversu lengi systir mín bjó við heimilisofbeldi, hún hefur aldrei fengið neina aðstoð til að vinna úr því, en stendur ennþá upprétt og gerir um aldur og ævi....Þar sem hún kaus að fara, fara og láta ekki lítinn mann sem gat ekkert annað en níðst á konum og börnum að brjóta sig meira niður...Já þessir menn eru litlir og eiginlega svo litlir að þeir eru bara eins og skítur undir skónum hjá manni....Ef þeir halda virkilega að þeir eigi síðasta orðið þá er það misskilningur...Samfélagið stendur upp móti ofbeldismönnum...

Konur sem lifa í ótta í skugga heimilisofbeldis, munið að þið eruð stærri, meiri og betri manneskjur en þeir sem beita ofbeldi...Munið líka að hversu hræðilegt sem lífið er þessa stundina þá getið þið allt....Þið getið allt...

Hvet ykkur sem ekki hafið hugmynd um hvað heimilisofbeldi er að kynna ykkur málið þar sem þetta er útbreiddara en þið gerið ykkur grein fyrir. Og því fleiri sem kynna sér málið verður til þess að ofbeldismenn eiga sér ekki viðreisnar von....Útskúfum alla ofbeldismenn...Áfram ísland!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband